ÍSLAND Á 19. ÖLD
eftir Frank Ponzi
Þeir komu með farfuglunum og fóru flestir með þeim aftur. Hvort heldur þeir voru prinsar, vísindamenn, skáld eða listamenn hafði Ísland mikil áhrif á þá, þannig að sumum entist það lífið á enda. Svo má ráða af bókinni Ísland á 19. öld, sem Frank Ponzi listfræðingur hefur samið um hina erlendu ferðalanga á Íslandi á öldinni sem leið.
Ísland á 19. öld gerir grein fyrir þessum sumargestum, ferðum þeirra um landið og athöfnum þeirra hér, birtir áður óbirtar dagbækur úr Íslandsferðum tveggja prinsa, dansks og hollensks, en umfram allt fjallar hún um myndlist þessara ferðalanga og birtir hátt á annað hundrað myndir sem hér urðu til á 19. öld. Sumar þessara mynda höfum við áður séð í bókum, aðrar hefur höfundurinn grafið upp í listasöfnum víðsvegar í Evrópu eða Ameríku, jafnvel á heimilum.
Ýmsar af myndum bókarinnar eru eftir fræga málara sem ferðuðust hingað á vit hins óþekkta til að endurnýja list sína við íslenskt landslag og öðruvísi birtu en þeir voru vanir. Aðrir gerðust dratthagir náttúruskoðarar sem vildu festa á blað þau stórmerki sem þeir urðu hér vitni að. En hvort heldur var, þá sýnir þessi arfur frá liðnum tíma, ásamt þeim texta sem fylgir, frábæra mynd af landi og mannlífi hér á 19. öld.
Að baki þessari bók liggja miklar rannsóknir, enda ber hún því vitni með sínu fagra yfirbragði og fjölda nýrra sagnfræðilegra upplýsinga.
Með Ísland á 19. öld - ekki síður en fyrirrennara hennar, Ísland á 18. öld - henfur Frank Ponzi unnið frábært verk, þar sem nýtur sín í góðri einingu sagnfræði, listasaga og örugg smekkvísi.
Bókin er með bæði íslensku og enskum texta, 159 bls. með 140 myndum.
Almenna Bókafélagið, 1986.
UPPSELD