Brennholtsútgáfa
English


ÍSLAND HOWELLS eftir Frank Ponzi


ÍSLAND HOWELLS - HOWELL'S ICELAND (1890 - 1901)
eftir Frank Ponzi listsagnfræðing.

 


Í þessari bók, sem er bæði á íslensku og ensku, er að finna í máli og myndum nýjar heimildir og mikinn fróðleik um íslenska menningarsögu og þjóðlíf á horfinni tíð. Ljósmyndir, sem Howell tók á glerplötur á ferðum sínum um landið, bæði á eigin vegum og sem leiðsögumaður erlendra manna í pílagrímsför á söguslóðir eru einstakur myndarfur frá síðasta tug 19. aldar.

Auk þess að vera fyrstur til að komast á Hvannadalshnúk 1891 og að ganga Langjökul þveran 1899, hefir Howell látið eftir sig gögn um upphaf þeirra menningar breytinga sem áttu sér stað á Íslandi áratuginn 1890 - 1901, en það ár drukknaði Howell í Héraðsvötnum og var grafinn að Miklabæ.

Myndir hans sýna okkur m.a. gömlu Reykjavík, landsbyggðina, náttúrufyrirbæri og horfna sögustaði. Einnig myndir, sem ekki hafa sést áður af prestum, skáldum, bændum og búaliði og af hetjum eins og ungri Sigríði Tómasdóttur í Brattholti, sem bjargaði Gullfossi fyrir þjóðina.

Með þvi að styðjast við myndefni, ritað mál úr ýmsum áttum, kirkjubækur, bréf og margt fleira, hefur höfundurinn náð að varpa ljósi á líf Howells og mikilvægt tímabil í sögu Íslands.

Bókin er í stóru broti, 214 bls. með 376 myndum, teikningum og kortum.

 

MYND Á KÁPU:

Howell tók þessa mynd árið 1898 af fjölskyldunni í Brattholti. Ekki óraði hann þá fyrir því, að Sigríður Tómasdóttir, sem situr hér til hægri við móður sína og systur, myndi seinna verða landsþekkt fyrir að bjarga Gullfossi frá því að lenda í höndum óprúttinna manna, sem höfðu í hyggju að virkja fossinn.

Á myndinni heldur hún á vendi úr íslenskum hagablómum.